Eftirlit

Upplýsingar

Eftirlit kvenna

Eftirlit með brjóstum
Konur sem kjósa að fara í áhættuminnkandi brjóstnámsaðgerðir geta valið að fara árlega í áframhaldandi eftirlit hjá sínum skurðlækni eða á Brjóstamiðstöð LSH. Það er í höndum konunnar að óska eftir þessu eftirliti. 

Eftirlit með eggjastokkum
Mælt er með að hefja eftirlit með eggjastokkum um 30 ára aldur, jafnvel fyrr ef það er sterk saga um eggjastokkakrabbamein í fjölskyldunni. Mælt er með eftirliti á 6 - 12 mánaða fresti (fer eftir fjölskyldusögu) og felst það í ómun á eggjastokkum. Eftirlit með eggjastokkum fer annað hvort fram hjá kvensjúkdómalækni á stofu eða á Kvennadeild LSH. Erfitt getur verið að greina breytingar á eggjastokkum og því mælt með að halda sig við sama kvensjúkdómalækni í eftirliti.

Eftirlit með húðbreytingum
Konur sem bera breytingu í BRCA2 þurfa að vera vakandi fyrir breytingum í húð og fylgjast með fæðingablettum. Eftirlit með húð og fæðingablettum er ráðlagt árlega. Hægt er að panta tíma hjá húðsjúkdómalækni eða biðja um eftirlit á Landspítalanum.

Eftirlit með brisi
Í þeim ættum þar sem einstaklingar hafa greinst með briskrabbamein er nánum ættingjum sem bera BRCA2 breytinguna vísað í briseftirlit. Það eftirlit hefst við 45 ára aldur.
Hér er hægt að óska eftir briseftirliti: Briseftirlit - Landspítali (landspitali.is)
Upplýsingar

Eftirlit eftir áhættuminnkandi aðgerðir

Eftirlit eftir brjóstnám
Þær konur sem kjósa að fara í áhættuminnkandi aðgerð og fara í brjóstnám eiga rétt á áframhaldandi eftirliti hjá sínum skurðlækni með árlegri skoðun eða eftir þörfum. Þetta á við hvort sem konur kjósa að fara í aðgerð á Klíníkinni eða á Landspítalanum. Það eftirlit er á höndum konunnar að óska eftir og panta þá hjá sínum lækni. 

Eftirlit eftir brottnám eggjastokka/eggjaleiðara
Eftirlit eftir brottnám á eggjastokkum og/eða eggjaleiðurum er ekki nauðsynlegt. Sumar konur kjósa þó að halda áfram í reglulegu eftirliti hjá sínum kvensjúkdómalækni eftir aðgerð. Velji kona hormónauppbótameðferð í kjölfar aðgerðar er sú ákvörðun einnig tekin í samráði við kvensjúkdómalækni.
Upplýsingar

Eftirlit karla

Eftirlit með blöðruhálskirtli
Karlar með meinvaldandi breytingu í BRCA2 geni eru í aukinni áhættu á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Mælt er með því að hefja árlegt eftirlit um 40 ára aldur. Með blóðprufu er hægt að fylgjast með svokölluðu PSA gildi sem sem getur gefið til kynna breytingar sem valda krabbameini. Körlum sem greinast með breytingu í BRCA2 er vísað í eftirlit hjá þvagfæraskurðlækni sem sér um að senda beiðni í blóðprufu og sér um úrlestur hennar. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir einkennum og mæta árlega í blóðprufuna því BRCA2 arfberar eru oft að greinast yngri og með krabbamein með meiri vaxtahraða og þarf því að bregðast hratt við.

Eftirlit með brjóstum
Í sumum ættum þekkist krabbamein í brjóstum hjá körlum og er ráðlagt eftirlit með brjóstum hjá þeim. Allir karlmenn sem bera BRCA1 og BRCA2 breytingar fá viðtal á Brjóstamiðstöðinni og er þeim kennd sjálfskoðun brjóstvefs.

Eftirlit með húðbreytingum
Karlar sem bera breytingu í BRCA2 þurfa að vera vakandi fyrir breytingum í húð og fylgjast með fæðingablettum. Eftirlit með húð og fæðingablettum er ráðlagt árlega. Hægt er að panta tíma hjá húðsjúkdómalækni eða biðja um eftirlit á Landspítalanum.

Eftirlit með brisi
Í þeim ættum þar sem einstaklingar hafa greinst með briskrabbamein er nánum ættingjum sem bera BRCA2 breytinguna vísað í briseftirlit. Það eftirlit hefst við 45 ára aldur.
Hér er hægt að óska eftir briseftirliti: Briseftirlit - Landspítali (landspitali.is)

Brjóstaskurðlæknar

Kristján Skúli Kristjánsson
Klíníkin
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir
Landsspítali
Eyrún Landsspítali
Þórhildur Halldórsdóttir
Landsspítali

Þvagfæraskurðlæknar

Rafn Hilmarsson

Kvennsjúkdóma, fæðinga og krabbameinslæknar

Ásgeir Thoroddssen
Landsspítali
Katrín Kristjánsdóttir
Landsspítali

Gagnleg símanúmer

Brjóstamiðstöðin
519-7000 Staðsetning
Kvennlækningadeild
543-1000 Staðsetning
Erfðaráðgjöf
543-5070 Staðsetning
Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélags Íslands
540-1900 Staðsetning
Framför - Félag karla með Blöðruhálskirtilskrabbamein
540-1900 Staðsetning
Leit