Sjúkraþjálfun eftir áhættuminnkandi brjóstnám
Sjúkraþjálfarar
Sjúkraþjálfarar hjá Gáska eru í samstarfi við Kristján Skúla Ásgeirsson brjóstaskurðlækni og hans teymi í Klíníkinni í Ármúla. Konum með stökkbreytt BRCA gen sem fara í áhættuminnkandi brjóstnám hjá honum stendur til boða að hitta sjúkraþjálfara um 4-6 vikum eftir aðgerð.Einstaklingsmiðuð þjálfun
Hver einstaklingur er einstakur og því mismunandi vandamál hjá hverri konu og hverju hún finnur fyrir. Sjúkraþjálfari tekur því viðtal og skoðun í upphafi meðferðar og metur hvað þarf til að hjálpa viðkomandi með. Sumar konur fara t.d. í svokallaða DIEP flipaaðgerð sem er umfangsmeiri og þá er einnig skurður á kviðsvæði og þá þarf einnig að varast álag á það svæði.
Líkamsstaða
Góð líkamsstaða er lykilatriði í að láta sér líða vel eftir aðgerð. Sjúkraþjálfari leiðbeinir með bætta líkamsstöðu en hætta er á að hún versni fyrst eftir brjóstnámsaðgerð. Algengt er að líkamsstaðan verði hokin, axlir framdregnar og staða handleggja röng.
Verkir
Verkir eru eðlilegur fylgifiskur bæði á skurðsvæði og almennir stoðkerfisverkir í kringum það t.d. í öxlum, hálsi og brjóstbaki. Sjúkraþjálfari skoðar og metur svæðið m.t.t. verkja og meðhöndlar eftir því sem þarf.Styttingar í bandvefÞað verða oft styttingar í bandvef yfir brjóstvöðvum, holhönd og upp í axlir og háls. Einnig verða stundum samgróningar í skurðum og eftir drenslöngur. Þessar styttingar er hægt að vinna á með bandvefslosun/teygjum, og með því að kenna æfingar og teygjur sem hreyfa við þessu svæði.
Skert tilfinning/dofi
Tilfinning á svæðinu breytist eftir aðgerð. Flestar konur finna fyrir tilfinningaleysi eða dofa yfir brjóstum og þar í kring og það er eðlilegt, en sú tilfinning getur aukist aftur með tímanum.
Vökvasöfnun
Þrátt fyrir að eitlar séu ekki fjarlægðir getur verið vökvasöfnun á svæðinu. Vökvinn sest oft hliðlægt við brjóst eða í kringum þau. Vökvinn getur verið bjúgur sem myndast eða blæðingar.
Hreyfing
Mikilvægt er að byrja að hreyfa sig strax, ganga og gera liðkandi æfingar til að minnka vöðvaspennu í herðum og koma í veg fyrir styttingar á vöðvum, liðpoka og bandvef. Almennt séð þarf þó að fara mjög varlega í 4-8 vikur eða á meðan gróandi er á svæðinu. Forðast þarf áreynslu á þessum tíma t.d. erfið heimilisstörf og að lyfta þungu og allt álag á brjóstasvæði þarf að forðast upp undir 8-12 vikur eins og t.d. að ýta eða toga.
Æfingar og teygjur
Fyrir aðgerð er gott að renna yfir þessar æfingar til að finna hvernig hreyfiferlar og liðleiki á svæðinu er.
Hér eru dæmi um liðkandi æfingar og léttar teygjur sem gott er að gera sem fyrst og helst að byrja strax daginn eftir aðgerð. Fyrstu vikuna þarf að fara varlega og æfingar 7 til 9 skaltu ekki gera fyrr en í fyrsta lagi viku eftir aðgerð og ekki fullan hreyfiferil í æfingu 3. Gott er að gera æfingarnar um 2 til 3 sinnum á dag og endurtaka hverja æfingu um 5 sinnum
Hér eru dæmi um liðkandi æfingar og léttar teygjur sem gott er að gera sem fyrst og helst að byrja strax daginn eftir aðgerð. Fyrstu vikuna þarf að fara varlega og æfingar 7 til 9 skaltu ekki gera fyrr en í fyrsta lagi viku eftir aðgerð og ekki fullan hreyfiferil í æfingu 3. Gott er að gera æfingarnar um 2 til 3 sinnum á dag og endurtaka hverja æfingu um 5 sinnum
1. Snúa öxlum í hringi
Snúðu öxlunum hægt í stóran hring, fyrst 3 hringi aftur á við og svo 3 hringi fram á við.
2. Vængjaæfing
Liggðu á bakinu, settu hendur undir hnakka (ef þú nærð ekki að spenna greipar aftan við hnakka setur þú þær yfir gagnauga fyrst og færir þær aftar eftir því sem liðleiki eykst) og láttu olnboga síga niður til hliðar eins langt og þú kemst.
3. Lyfta höndum í baklegu
Liggðu á bakinu og haltu á priki eða spenntu greipar í kjöltu þér, lyftu höndum upp fyrir höfuð eins langt upp og þú kemst. ATH fyrstu vikuna eftir aðgerð skaltu ekki fara hærra en 90 gráður eins og sýnt er á mynd (passa að olnbogar fari ekki upp fyrir axlir). Þessa æfingu er einnig hægt að gera sitjandi en hún er erfiðari þannig og meira styrkandi en liðkandi.
4. Afturhreyfing í öxl
Stattu með hendur niður með hliðum, haltu olnbogum beinum og byrjaðu á því að snúa lófum fram. Teygðu svo handleggina aftur fyrir líkamann og ef þú getur snúðu lófunum út. Haltu stöðunni í 3-5 sekúndur og slakaðu svo aftur. Passaðu stöðuna á hálsinum, horfðu beint fram.
5. Liðkandi æfingar fyrir háls og hnakka
Þessar klassísku æfingar er alltaf gott að gera og sérstaklega ef spenna er á þessu svæði. Passa þarf að gera hreyfingarnar rólega og jafnvel staldra við í loka hreyfingu og halda í 10 sekúndur ef þú finnur teygju.Horfa upp og niður: Liðkandi æfing fyrir hnakka og eðlilegt að finna teygju niður eftir hálsi og framanvert í hálsi. Horfa til hliðar: Passa að hakan lyftist ekki upp né niður. Hliðbeygja, eyra í átt að öxl: Hér er gott að staldra aðeins við í stöðunni og ýta gagnstæðri öxl niður á móti.Kinka kolli: Þetta er lítil hreyfing og aðalmálið er hreyfing hökunnar niður á við (eins og við séum að kinka kolli) og að lengja hálsinn aftanvert upp í hnakka.
6. Hendi aftur fyrir bak
Settu höndina aftur fyrir bak og reyndu að snerta neðri brún herðablaðs, ef þú nærð ekki alla leið þá byrjar þú á að leggja hönd á mjóbak og fikrar þig svo ofar með tímanum.
Æfingarnar sem koma hér á eftir skaltu ekki gera fyrr en vika er liðin frá aðgerð.
7. Klifra upp vegg
Stattu upp við vegg og snúðu að veggnum. Klifraðu upp vegginn eins hátt og þú kemst.
8. Brjóstvöðvateygja
Liggðu á bakinu og láttu hendur falla út til hliðar. Vinna má lengra inn í teygju með því að láta hendur fara hægt og rólega hærra upp í átt að höfði
9. Hliðarbeygja
Þessa teygju þarf að fara varlega í og gera þegar æfingum 2 og 7 hefur verið náð eins og þú gerðir þær fyrir aðgerð.
Efni unnið af Sólrúnu Sverrisdóttur sjúkraþjálfara hjá Gáska sjúkraþjálfun í samstarfi við Klíníkina í Ármúla