Kostnaður og greiðsluþátttaka
Eftirlitskostnaður og greiðsluþátttaka
Kostnaður við eftirlit
Eftirlit BRCA arfbera fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Þar inn koma myndagreiningar við brjóstaskoðanir, komugjöld hjá kvensjúkdómalæknum við eftirlit með eggjastokkum, blóðprufur hjá körlunum og komugjöld til húðsjúkdómalækna.
Hér eru upplýsingar um greiðsluþátttökukerfið: Greiðsluþátttökukerfi - hvað þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu? | Ísland.is (island.is)
Áhættuminnkandi aðgerðir
Kostnaður við áhættuminnkandi aðgerðir fyrir BRCA arfbera eru niðurgreiddar af Sjúkratryggingum Íslands, hvort heldur sem þær eru séu framkvæmdar á Landspítalanum eða Klíníkinni. Þó er enn utan samnings við Klíníkina nóttin eftir aðgerð á sjúkrahóteli Klíníkurinnar sem skjólstæðingar þurfa að greiða 98.000 kr fyrir. Það er þó málefni sem er í vinnslu og verður vonandi samþykkt inn í niðurgreiðslu þessara aðgerða. Það sama gildir um áhættuminnkandi aðgerðir með brottnám á eggjastokkum að þær aðgerðir eru niðurgreiddar.
Tilgangur greiðsluþátttökukerfis sjúkratrygginga er að lækka útgjöld þeirra einstaklinga sem þurfa að sækja læknisþjónustu ítrekað og ef ekki væri fyrir greiðsluþátttöku væru margir að greiða háar fjárhæðir fyrir læknisþjónustu. Fram til mitt árið 2018 gátu konur ekki valið að fara í brjóstnám á einkareknum stofum hér á landi þegar biðlistar voru langir á Landspítalanum. Aftur á móti gátu konur þá valið einkareknar stofur erlendis, jafnvel með sömu læknum og voru að bjóða upp á þessa þjónustu hér á landi. Núna hefur þessu verið breytt og konur geta valið hvort þær fara á Landspítalann eða Klíníkina hjá Kristjáni Skúla Ásgeirssyni í brjóstnám og uppbyggingu. Í öllum tilvikum þurfa einstaklingar að fá vottorð, eða hafa uppáskrifað frá lækni að þörf sé á greiðsluþátttöku frá Sjúkratryggingum.
Sjá nánar: www.sjukra.is
Ferðakostnaður
Almennt fær brakkafólk niðurgreiddar fjórar ferðir á ári til að sækja læknaþjónustu, ef sú þjónusta sem þau eru að sækja er ekki í þeirra heimabyggð.
Nauðsynlegt er að vita að sækja þarf um greiðslu ÁÐUR en ferð er farin (nema bráðatilvik sé um að ræða). Sækja þarf um hjá lækni í sinni heimabyggð (t.d. heimilislækni) og senda þarf eyðublað til sýslumanns, sem sendir það áfram til Sjúkratrygginga. Þegar heim er komið þarf staðfestingu á komu til læknis og kvittanir fyrir fargjaldi.
Sjúkratryggingar greiða 2/3 hluta kostnaðar, greiðsluhluti sjúklings er þó aldrei hærri en 1500 kr. fyrir hverja ferð.
Í janúar 2023, eftir baráttu Brakkasamtakana, fékkst í gegn að konur sem eru í áhættuminnkandi aðgerðum eiga rétt á opnu ferðavottorði og fá því greiddan ferðakostnað í tengslum við ferlið.
Símatími vegna ferðakostnaðar hjá Sjúkratyggingum er á milli 10-12 alla virka daga.
Hjálpartæki eftir brjóstnám
Aðgerðarbrjóstahaldarar fást í Eirberg. Mikilvægt er að vera í góðum íþrótta eða aðgerðarbrjóstahaldara í sex til tólf vikur eftir aðgerð til að veita brjóstunum stuðning.
Skurðlæknir sendir beiðni um styrk fyrir aðgerðarbrjóstahaldara til Tryggingastofnunar.
Gervibrjóst
Margar konur enda flatar eða eru tímabundið flatar á meðan á meðferðum stendur. Allar konur sem eru flatar, hvort sem það er á einu brjósti eða báðum eiga rétt á gervibrjósti. Beiðni þarf þó að koma frá lækni þess efnis og berast til sjúkratrygginga.
Gervibrjóst og fleygar eru mjög misjafnir og gerðir fyrir mismunandi aðstæður. Til eru álímd gervibrjóst, sem passa þá undir hvaða brjóstarahaldara og föt, svo eru aðrir sem er stungið í brjóstarahaldarann. Þá eru einhverjir gerðir til að fara í sund og þola mikið vatnsálag, en flestir þola þeir að blotna eitthvað.
Mikilvægt er að máta og prufa.
Eirberg og Stoð selja gervibrjóst og fleyga. Mjög mikilvægt að skoða úrvalið sem er í boði og velja það sem hentar hverju sinni.