BRCA genin - Erfðir og áhætta

Aukið eftirlit og eftirfylgni

Sá eða sú sem fær jákvætt svar úr erfðaprófi um að bera meinvaldandi breytingu hefur aðgang að fjölbreyttum stuðningi varðandi skimun, eftirlit og áhættuminnkandi aðgerðir. Með vitneskjunni fáum við tækifæri til að bregðast við. Erfðaráðgjöf Landspítalans hefur um árabil sinnt arfberum með erfðaráðgjöf. Brakkasamtökin eru mikilvægur hluti af stuðnings- og upplýsinganeti fyrir arfbera. Samtökin veita aðgang að fólki og upplýsingum sem geta skipt höfuðmáli þegar kemur að eftirliti, greiningu, meðferð og eftirfylgni. Einnig er hægt er að leita til Ráðgjafaþónustu Krabbameinsfélagsins eftir stuðningi endurgjaldslaust.
Eftirfarandi er upplýsingatexti frá Erfðaráðgjöf Landspítala

Um það bil þriðjungur allra Íslendinga fær krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni en meirihlutinn eftir miðjan aldur. Krabbamein hjá þeim sem eru yngri en 40 ára eru fátíð.

Erfðir og áhætta

Stökkbreyting - breyting - meinvaldandi breyting
Á hverju ári greinast um 230 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi. Af þeim má búast við að 5-10% séu með einhverja meinvaldandi breytingu í efðaefni - þar af um 4% BRCA2 breytingu. Þekking á erfðaþáttum sem auka áhættu á brjóstakrabbameini hefur um árabil verið nýtt í tengslum við erfðaráðgjöf, skimun og fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir krabbamein eða greina það snemma. Enn er verulegur hluti arfgengrar áhættu óútskýrður en frekari þekking mun skila sér í markvissari og öflugri aðferðum í baráttunni við þennan algenga og alvarlega sjúkdóm.

Erfðafræði

Mannslíkaminn er búinn til úr ýmsum gerðum af frumum. Þær eru svo litlar að þær sjást bara í smásjá. Inni í frumunum er kjarni og í þessum kjarna eru litningarnir. Þeir eru 46 talsins og skiptast í kynlitningana X og Y og A-litninga sem eru 44 í allt. Allir litningarnir eru paraðir og þannig eru alltaf tveir af hverri gerð. A-litningar eru 22 pör og kynlitningar eitt par. Þegar egg og sæðisfrumur verða til, fer annar af tveimum litningum af hverri gerð í frumuna – 23 litningar. Svo mætast sæðisfruma og eggfruma við getnað og úr verður okfruma sem hefur 46 litninga, þar sem helmingur hefur komið frá mömmu og helmingur frá pabba. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við skoðum erfðir meinvaldandi breytinga í BRCA genum. 

Á litningunum sitja svo genin sem eru miklu minni en litningarnir. Þau raðast á litningana, hvert fyrir sig í sitt sæti. Manneskjur hafa um 25.000 gen sem stýra starfsemi líkamans. (Genin eru uppskriftir að próteinum, sem eru byggingarefni líkamans). Það má (því) líkja erfðaefninu við uppskrift að manneskju. Hvert einasta gen segir til um einhverja starfsemi líkamans, stundum einn þátt, stundum fleiri. BRCA2 genið er eitt þessara gena.

Stökkbreyting - breyting - meinvaldandi breyting

Það sem við köllum stökkbreytingu í geni, (eða meinvaldandi breytingu í geni) er heiti á varanlegri breytingu á erfðaefni einstaklings. Stökkbreytingar í erfðaefni hafa nokkur heiti og það getur verið ruglandi. Stundum er talað um stökkbreytingar, stundum bara breytingar eða meinvaldandi breytingar til aðgreiningar. Svo er líka talað um erfðabreytileika og erfðabrigði. Ensk heiti eru t.d.: "mutation" "genetic changes" eða "pathogenic changes" eða "pathogenic variants".

Erfðabreytileiki á við um breytileika í genum milli einstaklinga. Það þýðir í rauninni smábreytingar í genum, sem ekki hafa mikla þýðingu. Stökkbreyting eða mutation er varanleg breyting í erfðaefni. Nú er frekar talað um meinvaldandi breytingu eða pathogenic variant. Þessi heiti eru notuð eru í krabbameinserfðaráðgjöfinni. Breytingar í erfðaefni skiptast í sómatískar breytingar, þ.e. breytingar sem verða í erfðaefninu eftir að manneskjan verður til og þær sem erfast milli kynslóða eins og t.d. BRCA breytingarnar.

BRCA

BRCA (BReast CAncer) genin eru tvö, BRCA1 og BRCA2. BRCA1 genið fannst á undan (1994) og BRCA2 skömmu seinna (1996). Í báðum genunum, BRCA1 og BRCA2, eru þekktar fjölmargar breytingar sem eru misalvarlegar. Hér á landi er algengust ein breyting í BRCA2 geni, en fleiri eru til – sú algengasta svo kölluð Landnemabreyting er kölluð 999del5 en fræðilega heitið er annað: NM_000059.3(BRCA2):c.771_775delTCAAA(p.Asn257Lysfs). Nafnið vísar til þess að þegar 999 stafir hafa verið taldir af geninu, falla út fimm (del5 eða deletion 5). Þessi úrfelling gerir að verkum að það sem eftir er af geninu er ekki lesið rétt eða alls ekki og þá starfar genið ekki rétt. Ástæðan er meðal annars sú að genin eru lesin í 3 stafa bútum og þegar 5 stafir detta út, riðlast textinn sem kemur á eftir.

Það má kannski skýra svona: "Lóa sem var lík mér var væn mús" Svo falla 5 stafir út: "Lóa sem var lík mér var væn mús" og útkoman verður: "Lóa rlí kmé rva rvæ nmú s" Þessi setning er óskiljanleg og ef þetta væri texti í geni, myndi það ekki starfa rétt, búa til vitlaust prótein eða alls ekki geta búið til prótein.

Erfðir BRCA gena

Breytingar í BRCA genum erfast óháð kyni. Sá eða sú sem ber meinvaldandi breytingu í BRCA geni gefur hana áfram í 50% tilfella til afkvæma sinna en það er í hvert sinn alger tilviljun og engin leið að stjórna því frekar en því hvort barnið er drengur eða stúlka.

Eitt heilt eintak af BRCA2 geninu dugar til að starfsemin er í lagi en ef það er af einhverjum ástæðum breytist í einhverri frumunni, þá er ekkert starfhæft eintak í þeirri frumu. Oft eru frumur sem eru með skemmt erfðaefni reknar í stýrðan frumudauða en ekki alltaf og ef þessi fruma fær að skipta sér, þá verða til tvær og svo fjórar og svo framvegis. Allar eru þær með samskonar erfðaefni, þ.e. ekkert starfhæft eintak af BRCA2 geninu. Þar sem BRCA2 genið starfar meðal annars við að leiðrétta villur í erfðaefninu, verða til margar frumur með óstarfhæfu erfðaefni, ef það starfar ekki rétt og villur safnast upp. Sumar þeirra eru þess eðlis að frumurnar fara að vaxa stjórnlaust og þá verður til æxli sem getur orðið að krabbameini.

Engin krabbamein eða vandamál á barnsaldri eru tengd breytingunni og ekki þarf að erfðaprófa börn.

Erfðarannsókn

Erfðarannsókn er framkvæmd með blóðprufu eftir að beiðni um slíka rannsókn hefur verið gerð, ýmist af erfðaráðgjafa eða heimilislækni ef ástæða er til. 

Þegar fólk hefur farið í erfðarannsókn tekur við bið eftir svari. Þessi bið getur verið erfið og stundum kvíðvænleg. Þá er gott að hafa einhvern til að tala við, annað hvort ættingja, vin eða mögulega sálfræðing. Til dæmis er hægt að leita til Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins eftir sálrænum stuðningi endurgjaldslaust.

Erfðarannsóknir eru ýmist þannig að gerð er bein leit að ákveðinni breytingu í erfðaefninu. Dæmi um það væri leit að þekktri breytingu í BRCA geni. Oft eru gerðar stærri rannsóknir og þá er leitað í mörgum genum (fjölgenarannsóknir) að einhverri breytingu sem gæti haft áhrif á heilsu viðkomandi og passar við þá sjúkdóma sem um ræðir. Svör úr erfðarannsóknum geta verið jákvæð, neikvæð eða að finnst breyting með óþekkta klíníska þýðingu. 

Neikvætt svar úr erfðarannsókn
Þegar leitað er að einni ákveðinni breytingu sem er þekkt í fjölskyldunni, þýðir neikvætt svar að viðkomandi breyting hefur ekki fundist í sýninu og er þá staðfesting. Þegar leitað er eftir einhverri breytingu í mörgum genum (fjölgenarannsókn), getur neikvæð niðurstaða þýtt að það fannst engin breyting, sem er gott. Á móti kemur að mögulega er einhver breyting til staðar sem staða þekkingar í dag grípur ekki.

Jákvætt svar úr erfðarannsókn
Á sama hátt þýðir jákvæð breyting þar sem leitað var eftir breytingu sem þekkt er í fjölskyldu, að hún hafi fundist. Einnig að ef gerð hefur verið fjölgenarannsókn og það finnst breyting sem flokkuð er meinvaldandi, þá telst niðurstaða jákvæð. Eftirfylgni fer þá eftir því hver breytingin var. 

Niðurstaða er að það fannst breyting með óþekkta klíníska þýðingu þýðir að einhver breyting fannst í geni en það er ekki vitað hvort sú breyting skiptir máli fyrir heilsufar fólks eða ekki. Stundum sendir rannsóknarstofan seinna nýja niðurstöðu með breyttri flokkun breytingarinnar. Stöku sinnum er vitað að fjölskyldusaga og saga viðkomandi einstaklings passar við að slík breyting sé meinvaldandi og þá er hún flokkuð þannig. 

Að öllu jöfnu er svarið gefið í síma. Ef vill er hægt að óska eftir því að fá svarið í formlegu viðtali sem þá fer fram á Eiríksgötu 5, þar sem erfðaráðgjöfin er til húsa. Í sumum tilfellum (aftur spurning um hvað ráðþegi vill) er fjarviðtal sem er þá gegnum öruggan búnað á spítalanum. 

Athugið að sé erfðarannsóknin gerð hjá Íslenskri erfðagreiningu þarf einnig að fara í próf hjá Landspítala þar sem Íslensk erfðagreining er ekki heilbrigðisstofnun og Landspítali hefur engan aðgang að niðurstöðum úr erfðarannsóknum þar. Einnig þarf að hafa í huga að Íslensk erfðagreining er einungis að rannsaka eina breytingu af BRCA2, svokallaða Landnemabreytingu, en það eru til fleiri breytingar af BRCA2. Svo þrátt fyrir neikvætt svar frá Íslenskri erfðagreiningu er hægt að vera með meingerð í BRCA2 geni. 

Fanconi Anemia 
Í þeim tilfellum þar sem bæði faðir og móðir eru með meinvaldandi breytingu í BRCA2 geni (þetta á við um fleiri gen), geta þau eignast barn sem er með alvarlegan sjúkdóm sem heitir Fanconi Anemia. Hann lýsir sér með sköpulagsgöllum, vaxtaskerðingu, beinmergssjúkdómi og hárri krabbameinsáhættu. Makar þeirra sem eru með meinvaldandi breytingu á barneignaraldri, geta farið í erfðarannsókn. 

Leit