Hrefna Eyþórsdóttir

Hrefna Eyþórsdóttir

Ég er fædd 1984 og kem af stórri BRCA ætt þar sem búið er að rekja BRCA genið okkar aftur til 16. aldar.

Ættartréð mitt eru 3 stórar fjölskyldur sem sameinast. Ef ættartréð mitt er skoðað í 3 gráðu eru 23 sem hafa greinst með BRCA2. Reiknilíkan hjá erfðaráðgjöfinni gefur upp að í minni fjölskyldu eru 70% líkur á að fá brjóstakrabbamein.

Ég greinist með BRCA2 stökkbreytingu eftir að hafa farið í erfðarannsókn 2015 en á þeim tíma voru margir í minni stórfjölskyldu búnir að vera í baráttu við krabbamein og þá kom upp hjá einhverjum sem hafði farið í erfðapróf BRCA2 og verið að hvetja alla til að fara í erfðarannsókn.

Þarna árið 2015, þá 31 árs gömul, var ég ófrísk og þá voru ófrískar konur ekki í eftirliti og ég beðin að hafa samband 3 mánuðum eftir að ég væri hætt með barnið á brjósti. Ég var í brasi með brjóstagjöfina og fékk endurteknar sýkingar og stíflur í hægra brjóstið.

Samviskusamlega hafði ég samband í nóvember 2017 til að hefja mitt eftirlit en á sama tíma fannst í ber í hægra brjóstinu.

Ég hitti 3 lækna fram að þeim tíma sem ég átti að mæta í myndatöku og þeir fullvissuðu mig allir um að þetta væri stíflaður mjólkurkirtill eða einhver þykknun bara eftir brjóstagjöfina og ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. En blessunarlega var ég búin að fá staðfest að ég væri með BRCA2 og átti því greiða leið í eftirlit.

Í kjölfarið reyndist þetta saklausa ber vera 3.stig brjóstakrabbamein sem búið var að dreifa sér í eitla í holhöndinni. Í framhaldinu fór ég í tvöfalt brjóstnám og uppbygging brjósta hófst í sömu aðgerð. Ég fór í lyfjameðferð og geislameðferð, brottnám á eggjastokkum og allt hitt sem krabbameinsmeðferð fylgir. Er svo núna, árið 2023 hálfnuð með andhormónameðferð.

Ég kom inn í stjórn Brakkasamtakanna 2021 og finnst það mjög skemmtilegt og gefandi að láta gott af mér leiða í málaflokkinn fyrir utan að kynnast frábæru fólki í kringum stjórnarstarfið og viðburði samtakanna.
Leit