Katrín Agnes Ellertsdóttir

Katrín Agnes Ellertsdóttir

Ég heiti Katrín Agnes Ellertsdóttir og er fædd árið 2001. Ég er úr Mosfellsbæ en bý á Akureyri núna og er að læra afbrotafræði í HA. 

Þar sem ég er bara 22 ára er BRCA sagan mín ekkert rosalega löng. Ég var 11 ára þegar mamma fór í brjóstnám og þar sem samskipti hafa alltaf verið í forgangi í minni fjölskyldu vissi ég frá ungum aldri að það væri möguleiki á að ég væri BRCA2 arfberi. Eftir því sem ég varð eldri byrjaði ég að hugsa frekar mikið um BRCA og hvort ég væri arfberi eða ekki. 

Þegar ég var 17 ára pantaði ég mér tíma í blóðprufu til að láta athuga en ég átti erfitt með að láta verða af því að fara í hana, það endaði með því að ég frestaði því þar til ég varð 18 ára. Þá kom í ljós að ég væri með BRCA2 og var það auðvitað mikið sjokk til að byrja með, en mamma sem hafði gengið í gegnum þetta allt saman hjálpaði mér með næstu skref. 

Ég fór í viðtal á landspítalanum eftir að ég greindist og þar var ættarsagan skoðuð ásamt því að tekin var sú ákvörðun að ég myndi byrja í eftirliti 25 ára. Í kjölfarið af þessu vöknuðu fullt af spurningum í sambandi við t.d. barneignir, en það voru spurningar sem mamma gat í raun ekki svarað þar sem hún var töluvert eldri en ég þegar hún greinist. Ég hugsaði með mér að það væri gott að geta talað við einhvern á mínum aldri með sömu spurningar og pælingar og ákvað þess vegna að stofna Facebook hóp fyrir ungar konur með BRCA á Íslandi, sem hefur gengið ótrúlega vel. 

Það var svo í lok 2023 þegar haft var samband við mig og spurt hvort ég vildi vera í stjórn Brakkasamtakana, sem mér finnst mikill heiður að fá að taka þátt í. Ég hlakka ótrúlega mikið til að leggja mitt af mörkum og er alltaf opin fyrir spjalli ef einhver vill. 

Instagram: @katrin.agnes
Leit